Nú um helgina er boðuð þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrártillögur stjórnlagaráðs. Ætti kannske að kallast skoðanakönnun, því hún er aðeins ráðgefandi – til hvers sem það svo er að biðja þjóðina ráða ef ekki er ákveðið að fara eftir niðurstöðunni !

 

Nú ,nú, lítum á málið. Þrátt fyrir mikla vinnu fjölda sómafólks stenst “nýja stjórnarskráin” ekki skoðun – því miður. Margt ber til, hér verður aðeins stiklað á stóru:

 

Þjóðkirkjan okkar.

Í núgildandi stjórnarskrá segir um trúmál og þjóðkirkju: “Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda”. Þetta ákvæði er ekki að finna í frumvarpi stjórnlagaráðs. Það er miður, því að í þúsund ár höfum við verið kristinnar trúar og þangað sótt viðmið í lög, siðferði og menningu. Ég hef sagt það áður og segi enn: Styðjum okkar kristnu kirkju og fáum henni fleiri verkefni td. á sviði líknar og mannúðarmála. Eins og hingað til hefur svo hver einstaklingur trúfrelsi.

 

Félagafrelsi ofl.

Í 74. grein núgildandi stjórnaskrár er talað um félagafrelsi. Þar segir ma.: “Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds. Banna má þó um sinn starfsemi félags sem er talið hafa ólöglegan tilgang . . . “. Þetta er sterk yfirlýsing og getur verið lögreglu og ráðherra dómsmála styrkur og haldreipi í baráttu við glæpasamtök. Í frumvarpi stjórnlagaráðs er þetta ákvæði ekki að finna. Það er til vansa að afnema þessa heimild nú þegar lögreglan hefur ítrekað bent á vaxandi ófyrirleytni og umsvif skipulagðra glæpagengja.

 

Réttur erlendra aðila.

Eftir því er tekið að ákvæði í 72. gr, 2. mgr. núgildandi stjórnarskrár er sérstaklega nefndur sá möguleiki að takmarka rétt erlendra aðila til fasteigna- og fyrirtækja-kaupa á Íslandi. Í frumvarpi stjórnlagaráðs er þessa ekki getið með jafnsterkum hætti. Hér skýtur skökku við þegar ásókn erlendra aðila í auðlindir Íslands, aðstöðu hér og áhrif hefur aldrei verið meiri.

 

Forsetar.

Hér rekst hvað á annars horn í frumvarpi stjórnlagaráðs: Alþingi ræðir frumvarp og samþykkir lög sem það hefur síðan tvær vikur til að koma til forseta Íslands sem staðfestir þau með undirskrift sinni – en við það öðlast þau gildi. Forseti Íslands getur synjað lögunum staðfestingar – ef hann gerir það innan einnar viku (er nú ótímabundið). Lögin taka samt gildi en skulu fara í þjóðaratkvæði innan þriggja mánaða (er nú “svo fljótt sem kostur er”). Handhafar forsetavalds td. í fjarveru hans eða veikindum eru nú forseti hæstaréttar, forsætisráðherra og forseti Alþingis. Þeir fara saman með vald forseta Íslands og ræður meirihluti.

Þessu þarf að breyta því meirihluti handhafanna er yfirleitt úr hinum ráðandi meirihluta Alþingis og gagnast því vart sem “hlutlaus öryggisventill” eins og við höfum litið á forseta Íslands. Frumvarp stjórnlagaráðs gerir hinsvegar ráð fyrir að forseti Alþingis verði eini handhafi forsetavalds. Semsagt, breyting sem ekki leysir vandann.

 

Framsal ríkisvalds.

Hér vísa ég til greinar nr. 111 í frumvarpi stjórnlagaráðs sem ma. segir: “Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu”. Hér erum við á hálum ís. Þá er einnig ótækt að í þjóðaratkvæðagreiðslu um framsal ríkisvalds geti helmingur þeirra sem atkvæði greiða afsalað fullveldi okkar í einni atkvæðagreiðslu. Fullveldi þjóðarinnar er grafalvarlegt mál. Hafa verður í huga að margt getur hindrað för á kjörstað td. veikindi, veður, sérstakar annir jafnvel náttúruhamfarir. Þannig þyrfti við 50% kjörsókn ekki nema 26% þe. rúman fjórðung kjósenda til að ráða niðurstöðunni fyrir alla þjóðina. Þá er einnig á það að líta að þegar tímabundnir erfiðleikar steðja að er hugsanlegt að fleiri vilji leita skjóls hjá td. ESB. Ekki væri óeðlilegt að td. tvo þriðju kjósenda þyrfti í tveim atkvæðagreiðslum með minnst sex mánaða millibili til að tryggja að fullveldisafsal nyti staðfasts og varandi stuðnings meirihluta þjóðarinnar.

Flestir sjá að með gr. 111 er verið að opna leið til inngöngu í ESB – nokkuð sem engum hugkvæmdist við stofnun lýðveldisins að nokkurntíma yrði á dagskrá nýfrjálsrar þjóðar - og því er ekki að finna neitt um slíkt í núgildandi stjórnarskrá. Nú er hinsvegar svo komið þó að ákafir landsölumenn muni þvertaka fyrir það. Hvað sem hver segir verður ekki framhjá því horft að hér eru menn að leika hættulegan leik með fjöregg þjóðarinnar – frelsi hennar og fullveldi. Þeir fá ekki minn stuðning til þess. Ég segi nei – hvað segir þú?

Baldur Ágústsson

Fv. forstjóri og forsetaframbjóðandi